HVER ER ÉG?

ÉG ER AUGA VINDSINS, OG EYRA ÞRUMUNAR, EN ÞIG SÉ ÉG EI NÉ HEYRI. ÉG ER LOGI ELDSINS OG BROTSJÓR HAFSINS. EN BÆNIR OG KVEINSTAFIR FINNA MIG EGI.

mánudagur, 13. apríl 2015

Sveinar Sýslumanns

Svifu á Bakkann sveinar tveir,
frá sýslumanni,
Jón Snorrason Jötuns erði,
og Jóhannes frá Litla Gerði.

Segir fátt af ferðum þeirra,
félaganna,
uns þeir komu á Eyrarbakka,
og á hressing tóku að smakka.

Gerðisbóndinn gildur gjörði,
svörum ráða,
við búðarmann hann barkann stælti,
bráðhuga og þannig mælti:

Við erum komnir Vallarmenn,
og viljum hafa,
fyrir helgi á 14 hesta,
fengin skal og sortin bezta.

Brauð og sykur, brennivín,
og beztu rullu,
sjálfsagt vil ég sjálfur hafa,
sanngjörn finnst mér þessi krafa.

Búðarlokur beygðu háls,
 og bljúgir mæltu:
Sjálfir megið vöru velja,
 varla skal hér of dýrt selja.

Í sætabrauðs og sykurkassa,
 svo hann vendi,
og rullustykki rekja náði,
 og rommið ekki gjörforsmáði.

Tók hann nú að tala hátt,
 og teygja svíra,
berja í borð og bjóða í glímu,
 og belja gömlu Andrarímu.

Því aldrei kvað hann að sig,
 myndi aflið bresta,
hvorki vit né væna hreysti,
 viður fjandann sér hann treysti.

Því 18 djöfuls erki ára,
 ég átt við hefi,
 á Hólmsbergi í húðarslyddu,
 hvað ei myndi takast lyddu.

Og einu sinni sagði hann,
 í Selvogi,
 við sjóinn sá ég skrímsli standa,
 samt ég hvurgi hræddist fjanda.

Stórt það var sem stofuþil,
 og sterkt sem hvalur,
með hausa tvo og tíu lappir,
 tryllt það reif upp grjót og klappir.

Á mig réðist rammur fjandi,
en ráð ei skorti,
hausana af ég hjó með saxi,

 svo helvítið lá dauður laxi.

(Sigurður Ísleifsson)

1 ummæli:

  1. Sigurður skipasmiður Ísleifsson frá Bjargarkoti í Fljótshlíð. Kona Sigurðar, Guðrún Jónsdóttir ljósmóðir ættuð frá Káragerði í Landeyjum. Þau bjuggu síðast hjá dóttir sinni í Merkisteini Eyrarbakka.
    Kveðið um aðstoðarsveina Hermanns Elíasar Jónssonar sýslumanns á Rángárvöllum.

    SvaraEyða